Lýsing
Claas Arion 470 sem Vélfang selur er millistór traktor á íslenskan mælikvarða. Sambærilegar vélar hvað varðar stærð eru Massey Ferguson 5700S, Valtra N og New Holland T6 þó erfitt sé að gera beinan samanburð.
155 hestöfl ásamt aflúrtaki að framan og aftan ætti að duga þessari vél í flest verk. Ámoksturstæki auka notagildi og fjaðrandi framhásing gerir akstur þægilegan.
Þegar horft er á vélina utan frá sést strax að metnaður hefur verið settur í að láta vélina líta smekklega út. Eitt helsta einkenni vélarinnar er ljósgræni liturinn og rauðu felgurnar sem hafa verið einkennislitir Claas landbúnaðartækja í áratugi. Annað sterkt einkenni eru sex hringlaga ljós fremst á húddinu. Þrátt fyrir að ljósin minni helst á augun á könguló þá er útfærslan á þeim vel heppnuð.
Að öðru leyti er Claas Arion eins og hver önnur dráttarvél: Með stór dekk að aftan, aðeins minni dekk að framan og ökumannshúsi aftast. Uppskrift sem er praktísk, enda er þetta vinnuvél.
Ökumannshús
Þegar klifrað er upp í ökumannshúsið heldur jákvæð upplifunin áfram. Sætið er stillanlegt á fjölmarga vegu og fjaðrar bæði upp og niður; og fram og til baka.
Flest sem ökumaðurinn snertir með höndunum er vel formað og úr góðum efnum. Stýrið er leðurklætt eins og í betri bifreiðum.
Fjölnota stýripinni og sjálfvirkur gírkassi
Næstum allri vinnu vélarinnar er stjórnað með stýripinna sem er þægilega staðsettur fremst á armpúðanum hægra megin. Ámoksturstækin eru það helsta sem er stjórnað með pinnanum, en með fjórum forritanlegum hnöppum er hægt að láta pinnann stjórna hverjum þeim aukahlut sem stýrt er með vökvaþrýstingi.
Auðvelt er að forrita hnappana eftir þörfum hverju sinni og getur sami takkinn stýrt þriðja sviðinu á ámoksturstækjunum eða verið til að hífa og slaka sláttuvél. Þessi pinni auðveldar verk sem krefjast mikillar endurtekningar og þarf notandinn ekki að teygja sig endurtekið í stjórnborðið við hliðina á sætinu.
Akstursupplifun vélarinnar minnir um margt á akstur sjálfskipts bíls, þökk sé Quadrishift 16/16 gírkassa. Í gólfinu er kúpling en hún er ekkert notuð við almenna vinnu þar sem nóg er að ýta á bremsuna til að stöðva vélina. Akstursstefnan er valin með vendigír sem er ýmist stjórnað með lítilli sveif vinstra megin við stýrið eða einfaldri skipun í stýripinnanum.
Annaðhvort er hægt að láta vélina skipta sjálf á milli gíra eða ökumaðurinn velur sjálfur milli þrepa með hnappi á pinnanum góða.